Komdu sæll Snorri Páll,
Þakka þér fyrir að leggja fram spurningar um framhaldsnám við Háskóla
Íslands. Það er hárrétt sem kemur fram í inngangi þínum að framhaldsnemar
leggja jafnan drjúgan skerf til vísindastarfs í háskólum undir leiðsögn
kennara. Ég tel eitt mikilvægasta verkefni Háskóla Íslands vera að skerpa
betur á hlutverki sínu sem rannsóknarháskóli og til þess að svo megi verða
er brýnt að styrkja framhaldsnámið. Mér er því ljúft að svara spurningum
þínum.
1. Hverjar eru þínar hugmyndir um álagningu skólagjalda á framhaldsnema?
Ég tel ekki að horfa eigi til skólagjalda til að leysa fjárhagsvanda HÍ,
hvort heldur í grunn- eða framhaldsnámi. Ég tel það vera lykilatriði fyrir
íslenskt þjóðfélag að eiga sterkan þjóðskóla þar sem allir, sem hafa vilja
og getu, geti menntað sig án tillits til efnahags. Það má ekki gleymast að
nemendur leggja talsvert af mörkum fjárhagslega nú þegar til að geta stundað
háskólanám, ekki síst fjölskyldufólk. Það verður jafnframt að hafa í huga
að upptaka skólagjalda kallar á aukin útgjöld ríkisins, bæði á formi beinna
framlaga til lánasjóðs og á formi niðurgreiddra vaxta vegna endurgreiðslu.
Í löndum þar sem skólagjöld hafa verið lögð á, hefur framlag ríkisins nær
undantekningalaust lækkað og skólagjöld að sama skapi smám saman hækkað.
Það er því við því að búast að slíkt gerðist hér, og Þótt skólagjöld yrðu í
upphafi tiltölulega hófleg, óttast ég að svo yrði ekki lengi. Það er líka
rétt að hafa í huga að fjárframlag til Háskóla Íslands er miklu lægra en
framlög til sambærilegra háskóla í nágrannalöndum. Á meðan fjárframlög til
skólans eru ekki samanburðarhæf við framlög í nágrannalöndum, megum við ekki
eiga á hættu að þau lækki enn frekar. Háskóli Íslands hefur lagt mikið af
mörkum til samfélagsins fyrir tiltölulega lítið fé.
2. Tala framhaldsnema við HÍ hefur margfaldast á undanförnum árum og
rannsóknir við skólann hafa aukist að sama skapi. Á hinn bóginn hafa
fjárveitingar til framhaldsnáms og bættar aðstæður til ástundunar þess ekki
fylgt þessari þróun eftir. Hvernig telur þú að megi bæta þar úr?
Langmikilvægasta hagsmunamálið að mínu mati er að framhaldsnemar geti
stundað námið sem fulla og launaða vinnu. Þegar stefna um eflingu
framhaldsnáms við HÍ var samþykkt, var gert ráð fyrir að opinbert
fjárframlagt til rannsókna yrði jafnhátt fjárframlagi til kennslu. Þetta
hefur ekki gengið eftir, og í stað þess að hlutfallið sé 1:1, er
rannsóknaframlag nú einungis 46% af framlagi til kennslu. HÍ hefur því
framfylgt stefnu sem vissulega hefur heppnast hvað varðar fjölgun stúdenta
og árangur í rannsóknum, en fjárframlag hefur ekki fylgt eftir. Árangurinn
sem náðst hefur er tilkominn vegna áræðni og dugnaðar bæði kennara og
stúdenta, en nú er úrræða þörf án tafar því ekki verður lengra gengið á
þessari braut án þess að til komi auknir fjármunir. Það fylgir mikil ábyrgð
því fyrir leiðbeinendur að taka að sér doktorsnema, bæði faglega og
fjárhagslega. Það er alveg ljóst að óöryggi í fjármálum getur leitt til
þess að hæfir kennarar veigri sér við að taka doktorsnema.
Við verðum að kynna rannsóknir og rannsóknartengt framhaldsnám við háskólann
miklu betur. Jafnframt verðum við að sækja markvisst á fjárvetingavaldið og
sannfæra það um arðsemi þessarar starfsemi fyrir samfélagið og nauðsyn þess
að hefja nýja sókn með Háskóla Íslands í fararbroddi. Ég trúi því að það
takist.
Með hækkuðu rannsóknaframlagi getum við aukið fjárframlag til deilda vegna
framhaldsnáms og styrkt aðstöðu og fjölgað námskeiðum á framhaldsstigi.
Ennfremur yrði kleift að auka fjárveitingar til Rannsóknasjóðs HÍ, en í hann
geta leiðbeinendur sótt um launakostnað vegna framhaldsnema. Ekki má svo
gleyma nýgerðum samningi sem Páll Skúlason rektor hefur haft forgöngu um,
þ.e. að nýta megi arðgreiðslur af Háskólasjóði Eimskipafélagsins til
eflingar framhaldsnáms. Þetta er ómetanleg lyftilstöng fyrir framhaldsnám
við HÍ. Með tilkomu Háskólatorgs, sem verið er að fjármagna um þessar
mundir, mun aðstaða framhaldsnema einnig batna svo um munar.
3. Til að vel takist til með framhaldsnám við hvaða háskóla sem er, er
mikilvægt að því sé sinnt af alúð og áhuga. Við Háskóla Íslands er eftirlit
með framgangi og gæðum framhaldnáms í mörgum tilfellum lítið sem ekkert og
áhugi á úrbótum lætur lítið á sér bera. Reglur hafa verið settar en
talsvert skortir á að farið sé eftir þeim. Hvernig vilt þú bæta úr þessu?
Það er dagljóst að ef við viljum halda úti framhaldsnámi á heimsmælikvarða
verðum við að gera mjög skýrar og strangar gæðakröfur. Við þurfum að gera
kröfur til skólans, við þurfum að gera kröfur til kennara og við þurfum að
gera kröfur til nemenda. Ég tel mjög mikið í húfi og mun því beita mér af
krafti fyrir því að skólinn fylgi sínum markmiðum að þessu leyti.
Mikilvægur liður í þessu er einnig það sem ég nefndi hér að framan,
þ.e.a.s. að framhaldsnemendur geti stundað námið sem fulla vinnu. Með því
skapast nauðsynlegur agi og festa, bæði fyrir skólann og fyrir nemendur. Það
má í raun segja að samfélagið hafi ekki efni á öðru en leggja fram það fé
sem til þarf. Við erum að byggja hratt upp íslenskt þekkingarsamfélag og þar
er nauðsynlegt að setja markið hátt.
4. Hvaða möguleika telur þú að Háskóli Íslands geti boðið fólki sem er
nýútskrifað úr framhaldsnámi til starfa og/eða rannsókna?
Framsýnn háskóli verður að huga að nýliðun og ég tel víst að með batnandi
fjárhag geti Háskóli íslands ráðið fleira vel menntað fólk til starfa við
kennslu og akademískar rannsóknir. Háskólinn þarf líka að vera vakandi
fyrir möguleikum til þess að setja upp fleiri rannsóknarverkefni í tengslum
við íslenskt atvinnulíf.
mánudagur, febrúar 21
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli