Fyrir nokkru sendum við ásamt framhaldsnemum við Læknadeild út Bréf til Rektorsframbjóðenda. Við höfum fengið svör frá þremur af fjórum frambjóðendum.
Hér kemur bréfið:
Til frambjóðenda til rektorskjörs við Háskóla Íslands
Það er til siðs í hátíðarræðum að vísa til framhaldsnáms sem helsta vaxtarbrodds Háskóla Íslands og á heimasíðu skólans segir um framhaldsnám: “Háskóli Íslands er traustur og viðurkenndur rannsóknaháskóli í hinu alþjóðlega vísindasamfélagi. Einn helsti þáttur í starfi Háskólans er rannsóknatengt framhaldsnám til meistara og doktorsnáms”. Til marks um árangur er gjarnan tekið fram að framhaldsnemum við skólann hafi fjölgað mjög á undanförnum árum. Hinsvegar er það svo að fjölgun framhaldsnema, ein og sér, dugar ekki til viðurkenningar í hinu alþjóðlega rannsóknasamfélagi. Við alþjóðlega viðurkennda háskóla hvílir rannsóknavinna á herðum framhaldsnema sem þar stunda sitt nám undir leiðsögn prófessora skólanna. Vinnuframlag þeirra er þannig ómetanlegt öllu vísindastarfi slíkra skóla.
Framhaldsnemar hafa hingað til lítið tjáð sig um eigin málefni á opinberum vettvangi, til að bæta úr þessu æskjum við þess að frambjóðendur svari eftirfarandi spurningum hér á HI-starf og vonum að hér geti farið fram almenn umræða um stöðu framhaldsnáms við Háskóla Íslands.
1. Umræða um að setja beri skólagjöld á nemendur við Háskóla Íslands skýtur upp kollinum með reglulegu millibili. Framhaldsnemar eru margir byrjaðir að stofna fjölskyldu og koma sér þaki yfir höfuðið. Þeir eru í mörgum tilfellum starfsmenn stofnana háskólans og fá sumir greidd laun af styrkjum, aðrir taka námslán, sumir taka að sér kennslu með námi en langflestir búa þeir við viðkvæman fjárhag. Auk þess er fjármagn til verkefna oft á tíðum ekki tryggt fyrirfram og við þekkjum dæmi þess að nemar hafi þurft að hverfa úr námi vegna þess að styrkir hafa brugðist.
Hverjar eru þínar hugmyndir um álagningu skólagjalda á framhaldsnema?
2. Tala framhaldsnema við Háskóla Íslands hefur margfaldast á undanförnum árum og rannsóknir við skólann hafa aukist að sama. Á hinn bóginn hafa fjárveitingar til framhaldsnáms og bættar aðstæður til ástundunar þess ekki fylgt þessari þróun eftir. Hvernig telur þú að megi bæta þar úr?
3. Til að vel takist til með framhaldsnám við hvaða háskóla sem er, er mikilvægt að því sé sinnt af alúð og áhuga. Við Háskóla Íslands er eftirlit með framgangi og gæðum framhaldnáms í mörgum tilfellum lítið sem ekkert og áhugi á úrbótum lætur lítið á sér bera. Reglur hafa verið settar en talsvert skortir á að farið sé eftir þeim.
Hvernig vilt þú bæta úr þessu?
4. Hvaða möguleika telur þú að Háskóli Íslands geti boðið fólki sem er nýútskrifað úr framhaldsnámi til starfa og/eða rannsókna?
Virðingarfyllst,
Framhaldsnemar við Læknadeild og Líffræðiskor Háskóla Íslands.
mánudagur, febrúar 21
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli