Sæll Snorri Páll,
Takk fyrir góðar spurningar um rannsóknatengda framhaldsnámið.
Ég legg megináherslu á það markmið að byggja hér upp alþjóðlega
samkeppnishæfan rannsóknaháskóla með vísindanámi sem er í fremstu röð á
alþjóðavettvangi. Rannsóknatengda framhaldsnámið er hjarta slíks skóla.
1. Hverjar eru þínar hugmyndir um álagningu skólagjalda á framhaldsnema?
Ég er alfarið á móti skólagjöldum og alveg sérstaklega í rannsóknatengda
framhaldsnáminu. Skólagjöld í rannsóknatengdu framhaldsnámi myndu leggja í
rúst þennan vaxtarbrodd HÍ.
Þessi umræða byggist á misskilningi, enda byrjaði hún út frá hugmyndum um
framhaldsnám í viðskiptafræði. Meistara- og doktorsnemar í rannsóknatengdu
framhaldsnámi eru víðast undanþegnir skólagjöldum, meira að segja í löndum
eins og Bandaríkjunum. Hvergi eru lögð skólagjöld sérstaklega á
framhaldsnám.
Íslendingar leggja helmingi minna til háskóla en Danir og Finnar. Við
eigum að jafna þann mun af skattfé en ekki með álögum á nemendur.
2. Tala framhaldsnema við HÍ hefur margfaldast á undanförnum árum og
rannsóknir við skólann hafa aukist að sama skapi. Á hinn bóginn hafa
fjárveitingar til framhaldsnáms og bættar aðstæður til ástundunar þess
ekki
fylgt þessari þróun eftir. Hvernig telur þú að megi bæta þar úr?
Fjárskortur HÍ kemur aðallega fram í litlum fjárveitingum til rannsókna.
Auknar fjárveitingar til skólans hljóta að koma fyrst og fremst
rannsóknastarfseminni og rannsóknatengda náminu til góða. HÍ hefur minna
en helming þess fjár sem sambærilegir háskólar í nágrannalöndum fá.
Mikilvægasta spurningin er hvernig og á hvaða forsendum getum við sótt fé
í greipar stjórnvöldum. Besta forsendan er að Ísland þarf alþjóðlega
samkeppnishæfan rannsóknaháskóla til þess að haldast í fremstu röð þjóða
og HÍ er besti grundvöllur slíkrar stofnunar á Íslandi. Það er því
skynsamlegt fyrir íslenska þjóð að efla HÍ.
Ég vil útdeild rannsóknafé á grundvelli jafningjamats og ekki miða við
kennslufjárveitingar né nota pólítíska skiptingu milli skóla. Rannsóknafé
á að fara þangað sem það er best nýtt, ekki endilega þangað sem flestir
nemar eru í grunnnámi eða þeirra skóla sem alþingismenn elska.
Háskólasjóður Eimskips (1500 milljónir) mun bæta hag rannsóknanema
gríðarlega og markar þá braut sem við eigum að fara.
3. Til að vel takist til með framhaldsnám við hvaða háskóla sem er, er
mikilvægt að því sé sinnt af alúð og áhuga. Við Háskóla Íslands er
eftirlit
með framgangi og gæðum framhaldnáms í mörgum tilfellum lítið sem ekkert og
áhugi á úrbótum lætur lítið á sér bera. Reglur hafa verið settar en
talsvert skortir á að farið sé eftir þeim. Hvernig vilt þú bæta úr þessu?
Stjórn skólans verður að taka mið af markmiðum sínum og metnaði. Markmið
um alþjóðlega samkeppnishæfan rannsóknaháskóla krefst gæðaeftirlits, sem
tryggir að vísindanám við skólann standist alþjóðlegar kröfur og sé í
fremstu röð. Meistara- og doktorsnemar eiga að birta niðurstöður í
alþjóðlegum ritrýndum vísindatímaritum.
Ég átti þátt í að setja reglur Læknadeildar um doktorsnám fyrir 10 árum,
og leiðbeindi reyndar fyrsta doktornum sem útskrifaðist eftir þeim reglum.
Rannsóknanámsnefnd Læknadeildar heldur uppi nákvæmu og virku gæðaeftirliti
í upphafi, miðbik og lok námsins, og horfir yfir öxl doktors- og
meistaranefndanna til að halda uppi alþjóðlegum staðli. Rannsóknanám í
fremstu röð krefst rannsóknastarfsemi í heimsklassa. Þetta er spurning um
metnað.
4. Hvaða möguleika telur þú að Háskóli Íslands geti boðið fólki sem er
nýútskrifað úr framhaldsnámi til starfa og/eða rannsókna?
Til þess að HÍ geti keppt á jafnréttisgrundvelli við háskólana í
nágrannalöndunum þarf að 2-3 falda fjárveitingar til skólans og megnið af
því færi til uppbyggingar á rannsóknum og rannsóknanámi. Hluti að því er
aðstoðarmannakerfi fyrir framhaldsnema og stöður yngri vísindamanna (post-
doc.). Við eigum að fara að fyrirmynd bestu rannsóknaháskóla í heiminum og
slíkar stöður fyrir yngri vísindamenn eru lykilatriði í styrk þeirra
stofnana. Alþjóðlega samkeppnishæfur rannsóknaháskóli verður að byggjast á
sambærilegum aðstæðum, fjárhag og mannafla og bestu háskólar í okkar
heimshluta.
Ég þakka fyrir spurningarnar.
Nánari upplýsingar má fá á heimasíðu minni www.einarstefansson.is sem
opnar á morgun.
Bestu kveðjur,
Einar Stefánsson
mánudagur, febrúar 21
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli