mánudagur, september 27

Umræddi skólagjaldapóstur:

Var sent á msn póstlistann, bloggið þjónar nú tilgangi þess.
From: Edda Sigurdís (Original Message) Sent: 9/21/2004 3:19 PM

Sæl og blessuð öll
Heyrði að það hefði verið góð mæting á fundinn síðasta föstudag, leitt að hafa ekki komist. Vonandi kemst ég næst.
Mig langar hins vegar svolítið að ræða þá hugmynd menntamálaráðherra að setja eigi skólagjöld á framhaldsnema. Eins furðulegt og það nú er þá virðast allir vera sáttir við þessa tillögu, að minnsta kosti hefur enginn hreyft mótmælum við henni.
Eins og staðan er í dag þá eru nógu litlir möguleikar á styrkjum fyrir framhaldsnema og ekkert sem bendir til þess að á móti þessum fyrirhuguðu skólagjöldum komi styrkja- eða lánakerfi. Framhaldsnemar sem oft eru að lepja dauðann úr skel hafa takmarkaðan aðgang að LÍN (nema þeir hafi sloppið við að taka lán á BSc náminu) og því miður er Rannsóknanámssjóður ekki nógu öflugur til að styrkja öll þau verkefni sem eru í gangi. Það liggur því í augum uppi að skólagjöld hljóta að draga úr aðsókn nema í framhaldsnám.
Fyrir mína parta þá get ég ekki skilið hvernig Háskóli Íslands, sem vill skilgreina sig sem rannsóknaháskóla, ætlar að geta stundað rannsóknir án þeirra þræla sem eru í framhaldsnámi. Í flestum rannsóknaháskólum eru það framhaldsnemarnir sem í raun halda uppi rannsóknum, doktorsnemarnir sjá oft um leiðbeiningu MSc nema og kennsla í grunnnámi hvílir á báðum þessum hópum. Það skýtur því ansi skökku við þegar það á að takmarka aðgengi að framhaldsnámi á þennan hátt og í raun stórfurðulegt að hvorki nemendur né prófessorar við HÍ hafi mótmælt þessum skólagjaldatilburðum menntamálaráðherra.

Held að við verðum að ræða þetta...
kveðja
Edda

Engin ummæli: