föstudagur, október 28

Bréf sem verður lagt fyrir næsta skorarfund

Askja, 27. október 2005

Til: Líffræðiskorar Háskóla Íslands
Frá: Félagi framhaldsnema við líffræðiskor HÍ

Aðstaða til framhaldsnáms í Öskju

Framhaldsnám við Líffræðiskor Háskóla Íslands hefur vaxið mjög á undanförnum árum og teljum við að framhaldsnemar gegni veigamiklu hlutverki í líffræðirannsóknum á Íslandi. Mikil breyting varð á háttum allra í skorinni þegar starfsemin flutti í Öskju. Aðstaða til starfa er um margt ágæt en þó skortir á að hún sé fullnægjandi að okkar mati. Einkum skortir á að nemendur hafi aðstöðu til skrifta og úrvinnslu gagna. Aðstaðan er þó afar mismunandi milli nemenda. Margir framhaldsnemar gegna mikilvægu hlutverki í kennslu og hafa með höndum skýrslur og trúnaðargögn sem þeir þurfa að geta geymt á öruggum stað. Við teljum að skorin ætti að útvega öllum framhaldsnemum tölvu til einkanota og hirslur fyrir gögn og bækur sem fylgja úrvinnslu gagna. Best væri ef öllum framhaldsnemum biðist rými á skrifstofu en það er regla í mörgum háskólum erlendis eins og starfsmenn skorarinnar þekkja trúlega.
Skortur á aðstöðu er sérstakt áhyggjuefni í ljósi þess að sífellt fleiri kjósa að stunda framhaldsnám við Líffræðiskor HÍ. Það virðist vera mikill áhugi fyrir því hjá Líffræðiskor að auka veg framhaldsnáms í skorinni. Okkur þykir það mjög jákvætt en við teljum brýnt að bæta aðstöðuna áður en framhaldsnemum fjölgar enn.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta málefni er borið upp, en allt frá því húsið var á byggingastigi lýstu framhaldsnemar áhyggjum sínum yfir því að ekki væri nægilega vel hugað að aðstöðu fyrir framhaldsnema í Öskju. Á fundi framhaldsnema þann 5.október s.l. var samþykkt að vekja skorina til umhugsunar um þetta mál enn á ný.
Það er hinsvegar ekki hlutverk framhaldsnema að skapa aðstöðu fyrir nám sitt, heldur hlýtur það að vera skorin sem býður uppá námið sem gegnir því hlutverki. Góð aðstaða fyrir framhaldsnema hlýtur að vera sameiginlegt hagsmunamál framhaldsnema og kennara.
Af þessu tilefni leggjum við eftirfarandi spurningar fram:
• Er aðstaða framhaldsnema við Líffræðiskor HÍ viðunandi að mati kennara líffræðiskorar?
• Hefur lágmarksaðstaða fyrir framhaldsnema verið skilgreind og ef ekki telur skorin að þörf sé á slíkri skilgreiningu?
• Er munur á þörfum MS nema og PhD nema varðandi aðstöðu?
• Eru einhver takmörk á fjölda framhaldsnemenda Líffræðskorar sem hefðu aðstöðu í Öskju?
Þessar spurningar eru lagðar fram í fullri alvöru og við búumst við að málið verði tekið fyrir og þessu erindi svarað. Framhaldsnemendur eru fúsir til að leggja fram tillögur um úrbætur og vinna með skorinni í því að bæta aðstöðuna ef leitað verður til þeirra um það. Það hlýtur samt að vera í verkahring kennara skorarinnar að sjá til þess að aðstaða til framhaldsnáms sé sem best í nýjustu byggingu Háskóla Íslands.

f.h. Félags framhaldsnema við Líffræðiskor HÍ

_____________________________________________
Ólafía Lárusdóttir, formaður

Engin ummæli: