mánudagur, febrúar 21

Svar Ágústar Einarssonar

Ágætu framhaldsnemar við Læknadeild og Líffræðiskor Háskóla Íslands.

Ég þakkar ykkur spurningar ykkar sem eru fjórar talsins og voru birtar á
Hi-starf fyrir skömmu. Svör mín fara hér á eftir.

1. Umræða um að setja beri skólagjöld á nemendur við Háskóla Íslands skýtur
upp kollinum með reglulegu millibili. Framhaldsnemar eru margir byrjaðir að
stofna fjölskyldu og koma sér þaki yfir höfuðið. Þeir eru í mörgum
tilfellum starfsmenn stofnana Háskólans og fá sumir greidd laun af styrkjum,
aðrir taka námslán, sumir taka að sér kennslu með námi en langflestir búa
þeir við viðkvæman fjárhag. Auk þess er fjármagn til verkefna oft á tíðum
ekki tryggt fyrirfram og við þekkjum dæmi þess að nemar hafi þurft að hverfa
úr námi vegna þess að styrkir hafa brugðist. Hverjar eru þínar hugmyndir um
álagningu skólagjalda á framhaldsnema?

SVAR:
Ég hafna alfarið skólagjöldum í grunnnámi og í framhaldsnámi í raunvísindum,
heilbrigðisvísindum og hugvísindum. Hófleg skólagjöld gætu þó átt við í
framhaldsnámi í félagsvísindum sem eru í innlendu samkeppnisumhverfi enda
hafa bæði Viðskipta- og hagfræðideild og Lagadeild farið fram á slíka
heimild. Skólagjöld eiga hins vegar alls ekki við í framhaldsnámi í
raunvísindum og heilbrigðisvísindum enda er framhaldsnámi þar háttað á allt
annað veg. Sama máli gegnir um framhaldsnám í hugvísindum en skólagjöld þar
eru alls ekki skynsamleg. Ég mun þvert á móti beita mér fyrir því að byggja
upp styrkjakerfi fyrir nemendur í öllu framhaldsnámi.
Skólagjöld eru að mínu mati ekki þáttur í umræðu um fjárhagsstöðu skólans
heldur er meginmálið að fá jafnmikið fjármagn til háskólastigins og varið er
til þess málaflokks á öðrum Norðurlöndum.

2. Tala framhaldsnema við Háskóla Íslands hefur margfaldast á undanförnum
árum og rannsóknir við skólann hafa aukist að sama skapi. Á hinn bóginn
hafa fjárveitingar til framhaldsnáms og bættar aðstæður til ástundunar þess
ekki fylgt þessari þróun eftir. Hvernig telur þú að megi bæta þar úr?

SVAR:
Háskólinn á framar öllu að vera rannsóknaháskóli. Í því er sérstaða hans
hérlendis fólgin auk þess sem hann er þjóðskóli, háskóli þjóðarinnar allrar.
Vitanlega þarf aukið framlag frá ríkisvaldinu í samræmi við nemendafjölda.
Ég vil auka rannsóknir, m.a. með því að Háskólinn fái meira fé beint til
rannsókna auk þess að auka fjármagn í Rannsóknasjóð. Gera á sérstakan
samning við ríkisvaldið, Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög um stuðning
við meistaranámið. Ég vil aðstoða akademíska starfsmenn sérstaklega við
rannsóknir, ekki hvað síst í upphafi ferils þeirra.
Ég vil að Háskólinn verði sem virkastur í opinberri rannsóknastefnu og sem
flestar rannsóknastofnanir verði á háskólasvæðinu. Rannsóknamatskerfi
Háskóla Íslands á að gilda fyrir alla háskóla hérlendis. Ég vil gera
árangurstengdan rannsóknasamning við ríkisvaldið og að unnið verði þar eftir
sérstöku reiknilíkani. Samstarf við fyrirtæki um rannsóknir verði stóraukið.
Ég vil að gerðir verði þrír fjárhagslegir samningar við ríkisvaldið,
þ.e.a.s. um kennslu í grunnnámi, um kennslu í framhaldsnámi og um
rannsóknir.

3. Til að vel takist til með framhaldsnám við hvaða háskóla sem er, er
mikilvægt að því sé sinnt af alúð og áhuga. Við Háskóla Íslands er eftirlit
með framgangi og gæðum framhaldnáms í mörgum tilfellum lítið sem ekkert og
áhugi á úrbótum lætur lítið á sér bera. Reglur hafa verið settar en
talsvert skortir á að farið sé eftir þeim. Hvernig vilt þú bæta úr þessu?

SVAR:
Unnið hefur verið að gerð gæðakerfis í framhaldsnámi í Háskóla Íslands, bæði
fyrir meistaranám og doktorsnám. Þetta gæðakerfi byggir á umræðu innan
skólans, á Háskólafundum og innan deilda, þar sem gerðar eru sömu kröfur og
til sambærilegs náms og er í nágrannalöndunum.
Ég mun beita mér fyrir góðu regluverki á þessu sviði og að farið verði eftir
því. Ég mun veita þessu máli það aðhald sem þarf til. Jafnframt er brýnt að
samræmt eftirlits- og gæðakerfi gildi fyrir allt framhaldsnám hérlendis
þannig að vandað gæða- og eftirlitskerfi í framhaldsnámi taki ekki einungis
til Háskóla Íslands heldur einnig til allra háskóla hérlendis. Það á að
ríkja jafnræði milli háskóla hérlendis í mati á gæðum, kennslu og rannsóknum
enda fjármagnar ríkisvaldið alla skólana að stórum hluta með sköttum
almennings.

4. Hvaða möguleika telur þú að Háskóli Íslands geti boðið fólki sem er
nýútskrifað úr framhaldsnámi til starfa og/eða rannsókna?

SVAR:
Ég tek undir með ykkur um mikilvægi þess að fólk geti starfað í Háskóla
Íslands við rannsóknir eftir framhaldsnám. Hinn nýi doktorsnámssjóður
Háskólasjóðs Eimskips mun styrkja framhaldsnámið verulega og mikilvægt er að
fleiri komi í kjölfarið með þannig fjárframlög. Rannís er að byggja um
stoðkerfi fyrir þá sem hafa lokið framhaldsnámi og brýnt er að það verði
eflt jafnframt því að deildir fái meira fjármagn beint til að geta ráðið
fleiri unga vísindamenn. Ef Háskólinn fær meira fjármagn verður þetta hægt í
mun meira mæli en nú er.
Ég mun einnig, ef ég næ kjöri sem rektor, fara í viðræður við stjórnvöld um
að fyrirtæki fái skattaívilnanir ef þau styrkja rannsóknir og kennslu á
háskólastigi. Ég var upphafsmaður að slíkum tillögum fyrir nokkrum árum til
að efla menningu og vísindi. Slíkar skattaívilnanir eru algengar í
nágrannalöndunum og brýnt er að sama fyrirkomulag verði innleitt hérlendis.
Slíkt myndi jafnframt auðvelda ungum vísindamönnum að fá starf í
háskólaumhverfinu.

Ég leyfi mér að lokum jafnframt að vísa á heimasíðu mína vegna
rektorskosninganna en slóðin er www.agust.is/

Bestu kveðjur,

Ágúst Einarsson
======================

Engin ummæli: