...um styrki úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands til stúdenta í rannsóknatengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands*
Þann 9. febrúar 2005 undirrituðu formaður stjórnar Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands og rektor Háskóla Íslands viljayfirlýsingu um styrki til stúdenta í rannsóknatengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands. Tilgangur Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands er að stuðla að velgengni Háskóla Íslands og styrkja efnilega stúdenta til náms við skólann.
Um styrki geta sótt doktorsnemar við Háskóla Íslands og stúdentar sem uppfylla inntökuskilyrði viðkomandi deildar í doktorsnám og fastráðnir kennarar eða sérfræðingar við Háskóla Íslands, sem ráðnir eru á grundvelli hæfnisdóms og uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til leiðbeinenda í doktorsnámi. Í sérstökum tilvikum geta meistaranemar sótt um styrk í allt að 12 mánuði, og þá aðeins ef meistaraverkefni nemur 30 einingum eða meira. Vakin er athygli á því að umsóknir um styrki til doktorsnáms hafa að öðru jöfnu forgang. Umsóknarfrestur er til *15. janúar* *2006.* Umsókn skal að jafnaði vera á íslensku, en heimilt er að leggja inn umsókn á ensku.
Umsóknir til sjóðsins geta verið af tvennum toga:
a) Stúdent og leiðbeinandi sækja beint til sjóðsins í sameiningu.
b) Leiðbeinandi sækir um á grundvelli verkefnis án stúdents.
Hljóti leiðbeinandi vilyrði um styrk án stúdents skal leiðbeinandi auglýsa styrkinn til umsóknar og velja úr umsækjendum. Styrkur er háður því að sá stúdent sem fyrir valinu verður uppfylli reglur sjóðsins. Leiðbeinandi hefur að hámarki fjóra mánuði til að velja stúdent. Að þeim tíma liðnum fellur vilyrði um styrk niður.
Umsóknum skulu fylgja:
Greinargerð um rannsóknarverkefnið, markmið þess og vísindalegt gildi,
feril- og ritaskrá stúdents (sbr. leið a hér að framan) og leiðbeinanda,
námsáætlun stúdents (leið a),
stutt greinargerð um aðbúnað og aðstöðu til námsins og
önnur gögn sem styrkt geta umsókn, s.s. meðmæli.
Við mat á umsóknum er m.a. litið til eftirfarandi þátta:
Vísindagildis fyrirhugaðs rannsóknarverkefnis,
frammistöðu nemenda í grunn- og framhaldsnámi (leið a),
námsáætlunar (leið a),
rannsóknarvirkni leiðbeinanda,
hvort aðbúnaður og aðstaða í deild sé fullnægjandi og
frágangs umsóknar.
Hver styrkur nemur að jafnaði um 2,5 m.kr. á ári í allt að þrjú ár, eða samtals að hámarki um 7,5 m.kr. Stúdentinn er styrkþegi og rennur styrkurinn óskiptur til framfærslu hans.
Umsóknum skal skilað í *tvíriti* og rafrænt til skrifstofu rannsóknasviðs í Aðalbyggingu Háskóla Íslands (sverrir@hi.is). Frá og með þriðjudeginum 20. desember verða eyðublöð fáanleg á slóðinni: http://www.hi.is/page/rannsoknasvid. Reglur sjóðsins er að finna á sömu slóð.
Frekari upplýsingar eru veittar á skrifstofu rannsóknasviðs, sími: 525 5242 (sverrig@hi.is eða dorij@hi.is).
fimmtudagur, desember 15
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)